Sumarlestur Bókasafns Akraness er lestrarhvetjandi verkefni fyrir börn á aldrinum 6 – 12 ára. Markmiðið með sumarlestri er að hvetja börn til lesturs, til að njóta góðra bóka og ekki síður til að viðhalda og auka færni sína í lestri milli skólaára. Börnin skrá sig til leiks frá 1. júní og lestrinum lýkur 11. ágúst. Þema „bókamiða“ í ár eru himingeimurinn, geimverur og vísindi. Þegar börnin skrá sig til þátttöku í sumarlesturinn fá þau afhenta lestrardagbók. Í hana skrá þau þær bækur sem þau lesa í sumar. Börnin fá stimpil í dagbókina sína og „geimverumiða” til að festa í bókanetið. Þátttaka er ókeypis, en foreldrar þurfa að fylgjast með að bókum sé skilað á réttum tíma. Við hvetjum fjölskyldur að lesa saman í sumar.